861-5552

Ferðalýsing

Föstudagur, 7. nóvember

Boðið verður upp á flutning til og frá Charles de Gaulle flugvelli að hótel Lutetia.
Innritun á hótelið er í boði frá kl. 15.00 um eftirmiðdaginn. Við munum leiða stutta gönguferð til að kynnast nánasta umhverfi hótelsins og kíkja við í Bon Marché frá 1852 sem er ein elsta og glæsilegasta verslunarmiðstöð heims. Byggingin var hönnuð af arkitektinum Louis-Charles Boileau og verkfræðingnum Gustave Eiffel sem er frægastur fyrir hönnun Eiffel turnsins. Við stöldrum við í La Grande Épicerie de Paris, ævintýraveröld sælkera og smökkum dýrindis makkarónur og annað góðgæti. Á leiðinni til baka lítum við inn í bestu konfekt búðina í París í smakk og tískuhúsið Hermès.
Innritun á hótel Lutetia og frjáls tími. Hittumst í fordrykk á hinum vinsæla kokteilbar Joséphine á hótelinu. Barinn er draumkennd veröld veggmálverka- freska, helgaður söng-, dans- og leikkonunni Joséphine Baker sem er verndari Lutetia hótelsins. Sameiginlegur kvöldverður á veitingastaðnum Le Saint-Germain undir geislandi og litríku glerþaki við hlið dásamlegs hótelgarðsins. Til að lifa eins og Parísarbúi þarf þrennt til: frábæran mat, stórkostleg vín og jafnvel enn þá betri samræður.
Gisting: Hotel Lutetia. Innifalið: Fordrykkur og þriggja rétta kvöldverður.

Laugardagur, 8. nóvember:

Að loknum morgunverði er haldið í rútuferð eins konar yfirlitsferð um Parísarborg. þar sem við kynnumst því m.a. hvernig borgin er uppbyggð, hvaða hverfi tengjast, hver eru helstu sérkenni, saga og byggingarlist. Ekið eftir breiðstrætinu Bd Raspail að Montparnasse sem er athyglisvert og lifandi hverfi með þekktum kaffihúsum og veitingastöðum þar sem þekktir listamenn og rithöfundar komu saman í aðdraganda seinni heimstyrjaldarinnar. Þaðan ökum við eftir breiðstrætinu Montparnasse að Les Invalides þar sem gyllt hvolfþak hæstu kirkjubyggingar í París, 107 metra Dome des Invalides ber við himinn – grafhýsi Napóleons. Þaðan ökum við yfir Signu að torginu við Trocadero og njótum útsýnis yfir Eiffel turninn og Signubakka. Við ökum eftir Avenue Kléber að Sigurboganum og þaðan niður breiðstrætið Champs-Elysée að hinu sögufræga torgi Concorde þar sem m.a. Lúðvík sextándi og Marie-Antoinette voru líflátin á tímum frönsku byltingarinnar. Við höldum áfram ferð meðfram bökkum Signu fram hjá lystigarðinum Tuileries og listsasafninu L´Orangerie þekkt m.a. fyrir einstaka sýningu á Vatnaliljum Monets og annarra listamanna s.s. Cézanne, Matisse, Modigliani, Picasso og Renoir.
Við stígum úr rútunni við Louvre safnið. Louvre var um aldaraðir aðsetur hins franska konungsdæmis og keisara frá 16. öld til Napóleons þriðja til loka 19. aldar. Í Louvre er m.a. stærsta safn listaverka í heimi. Hér tökum við hádegisverðarhlé og kynnumst best geymda leyndarmáli Parísar, veitingastaðnum Le Café Marly inn í bogagöngum Louvre-byggingarinnar með útsýni yfir Pýramídann, aðal inngang og táknmynd Louvre. Louvre safnið er stærsta listaverkasafn heims og hýsir fræg málverk á borð við Mónu Lísu og fleiri stórkostleg málverk. Um eftirmiðdaginn gefst valkostur á heimsókn í Louvre safnið með prívat leiðsögn eða að taka strætó að Palais Garnier Óperunni og kíkja í tískuhallir Parísarborgar t.d. Gallerí Lafayette til að njóta stórkostlegs útsýnis yfir borgina frá þaksvölunum á 8. hæð byggingarinnar.
Tökum svo strætó til baka inn á hótel Lutetia. Kvöldið frjáls en munum gefa ráð varðandi góða veitingastaði í grennd við hótelið.
Gisting: Hotel Lutetia. Innifalið: Morgunverður og tveggja rétta hádegisverður.

Sunnudagur, 9. nóvember:

Að loknum morgunverði höldum við í þægilega gönguferð um hluta Latínuhverfisins á vinstri bakkanum yfir að Notre Dame kirkjunni. Göngum sem leið liggur í gegnum Lúxembourgargarðana og að Pantheon. Byggingin var var upphaflega reist sem kirkja til dýrðar verndardýrlings Parísar, Heilagri Geneviève , um miðja 18. öld en hefur sex sinnum skipt um hlutverk. Eftir frönsku byltinguna í kjölfar dauða Mirabeau 1791 var hún gerð að þjóðarskríni, grafhýsi fyrir hina frægu. Napoleon Bonaparte breytti byggingunni aftur í kaþólska kirkju en hélt grafhvelfingunni. 1848 var byggingin nefnd musteri mannúðar en eftir útför Victor Hugo 1885 tók byggingin aftur við upprunalegu hlutverki sínu sem Pantheon þ.e. þjóðarskríni, grafhýsi hinna frægu og merku andans manna og kvenna Frakklands s.s. Voltaire, Marie Curie og Jean Moulin. Við heimsækjum kirkjuna St Etienne du Mont frá 1530, staður pílagríma og sóknarkirkja, einstakt sambland af gotneskum og endurreisnar byggingarstíl, helguð verndardýrlingi Parísarborgar Heilagri Geneviève, sem bjargaði París frá Húnum árið 451. Þaðan liggur leið okkar að Arénes du Lutece sem er meðal merkustu rómversku fornleifa Parísarborgar, hringleikahús frá 1. öld eftir Krist. Á hinu líflega torgi Place de la Contrescarpe setjumst við niður á kaffihús og fáum okkur expresso-kaffi áður en við förum á markaðinn á Rue Mouffetard.
Tökum svo strætó inn að háskólahverfinu í París, hinum fræga Sorbonne háskóla sem var stofnaður 1257, einn elsti háskóli í heiminum. Við heimsækjum kirkjuna Saint Sulpice, sem er næststærsta kirkjan í París á eftir Notre Dame. Kirkjan gegnir mikilvægu hlutverki í sögu Dan Brown Da Vinci „Lykillinn“ sem flestir þekkja.
Við njótum hádegisverðar á elsta kaffihúsinu í París Le Procope frá 1686, í hjarta latínuhverfisins. Margir andans menn sóttu þennan stað: Voltaire, Danton, Hugo, Balzac, Rousseau, Benjamin Franklin, og Thomas Jefferson. Að því loknu tökum við strætó yfir Signubakka að Ile Saint Louis. Þar gefst kostur á að rölta um og njóta útsýnis yfir Signu og að Notre Dame kirkjunni. Við fræðumst um Notre Dame kirkjuna, byggingarstíl og áhrif brunans frá 2019. Göngum svo saman yfir að Sainte-Chapelle meistaraverki gotneskrar byggingalistar frá 1239. Kirkjan var byggð af Lúðvík níunda til að hýsa trúarlega muni frá landinu helga m.a. að því er talið er, þyrnikórónu Krists; nagla úr krossinum og tréflís úr krossi Krists. Að stíga inn í þennan helgidóm er eins og að koma inn í skartgripaskrín svo stórkostlegir eru steindir gluggar kirkjunnar. Þessir munir eru reyndar í dag í neðanjarðarhvelfingu Notre-Dame.
Frjáls tími það sem eftir lifir dags og kvölds.
Gisting: Hotel Lutetia. Innifalið: Morgunverður og tveggja rétta hádegisverður.

Mánudagur 10. nóvember:

Að loknum morgunverði er frjáls tími og svo haldið í rútu frá hótel Lutetia út á flugvöll fyrir brottför flugs til baka til Íslands. Mögulegt er að framlengja dvöl á hótel Lutetia í París um einhverja daga.
Innifalið: Morgunverður.